Sumir dagar eru stórkostlega betri en aðrir...
Gærdagurinn var einn af þessum dögum. Við pabbi skelltum okkur í hesthúsið fljótlega uppúr hádegi og fórum í fyrstu reiðtúra vetrarins. Betra seint en aldrei!!! Það er búið að vera svo mikið að gera og svo er veðrið búið að vera svo leiðinlegt að það hefur einhvern veginn ekki gefist tími fyrir miklar útreiðar, en í gær fórum við. Við byrjuðum að fara á Náttsól og Urði, þær stöllur voru nú ekki á því að fara mikið fetið. Ó nei það var sko tekinn sprettur allan hringinn, æðislega gaman hjá þeim. Ég var í einhverri tilgangslausri baráttu að reyna að halda aðeins aftur af Urði svo hún sprengdi sig ekki á fyrsta túrnum en gafst fljótt upp á því. Þær stóðu því gjörsamlega á öndinni er við komum aftur í hesthúsið, en ægilega ánægðar með sig. Næstir voru Golíat og Víðir. Ég var nú alveg viss um að það myndi verða miklu rólegra en nei... Víðir tók af stað á fljúgandi tölti úr innkeyrslunni og Golíat á eftir. Þeir voru jú ekki alveg á sama spaninu og skvísulísurnar, enda annar á 23 aldursári og hinn frekar hægur í förum þó hann sé að fara hratt. Þetta var alveg besti dagurinn í langan tíma, eina sem skemmdi aðeins var að hinn aldursforsetinn í húsinu okkar var eð skrítinn. Við komumst að þeirra niðurstöðu að greyið væri með hrossasótt (hestaflensa fyrir ykkur sem aldrei hafið stigið fæti í sveit, magakrampi og skemmtilegheit) og var því kallaður til dýralæknir. Við pabbi komum honum á fætur, ég togaði í hausinn og pabbi ýtti á rassinn og svo labbaði ég með hann fram og tilbaka þangað til dýri kom því ef ég stoppaði þá henti hann sér niður greyið. Dýri gaf honum 2 sprautur og var hann allur að koma til þegar við fórum heim. Ég ætla ekki að láta langt um líða áður en ég á annan svona dag.
2 Comments:
Veiii komin aftur :) Gaman að geta fylgst með þér aftur skvís
Verð nú að fara að fá að koma með Hinrik Val að sjá alvöru hoho... ;) Svo hann hætti nú að kalla Lady hoho ;)
Takk annars fyrir kvöldið, alltaf æði að hittast og kjafta!!
BA kveðjur, Erla
Skrifa ummæli
<< Home