mánudagur, júlí 05, 2004

Roskilde 2004

Jæja fólk þá erum við komin heim eftir þessa 5 daga rokkgeðveiki...

Dagur 1... nei bara grín. Við lögðum af stað kl 5 á miðvikudeginum og vorum komin á tjaldsvæðið um áttaleytið. Við okkur blasti geggjuð sjón, það var tjald við tjald og fleirifleiri manns og þetta var bara vestur svæðið. Við röltum af stað í leit að tjaldsvæði, ekki auðvelt verk get ég sagt ykkur, og yfir brúnna á austursvæði. Þar blöstu við okkur ennþá fleiri tjöld, við drösluðumst með farangurinn að það virtist endalaust en á endanum fengum við tjaldsvæði. Í ca 5-10 mínútna fjarlægð frá tónleikasvæðinu. Við nutum kvöldsins og skoðuðum okkur aðeins um eftir að hafa komið okkur fyrir.

Á fimmtudeginum röltum við yfir á vestursvæðið til að fá okkur að borða og á meðan við vorum þar byrjaði að rigna, ja ég á bara eiginlega ekki til orð yfir það, einnig voru þrumur og eldingar og haglél. Svæðið fór allt á flot á korteri, þegar loksins hætti að rigna drifum við okkur og keyptum stígvél ásamt restinni af liðinu. Þegar stígvélin voru komin var það næsti liður á dagskrá, bjórinn. Við skelltum okkur í Tuborg húsið og keyptum kassa af bjór á 180 kr danskar, og kassinn er 5 kippur ekki bara 4 eins og heima. Berglind og Gústi báru kassann upp í tjald þar sem bakið á mér var e-ð að stríða mér. Við fórum í þurr föt og í regnföt og auðvitað nýju stígvélin, svo var haldið af stað upp á tónleikasvæðið. Stefnan var tekin á Blonde Redhead tónleikanna, en þar sem ég gleymdi dagskránni og kortinu af svæðinu í tjaldinu vorum við pínu áttavillt og það tók okkur dálítinn tíma að finna Odeon sviðið og við misstum af tónleikunum. Það var hálffúlt en gerði svo sem ekki mikið til. Við fengum okkur rölt um svæðið, svona til að átta okkur á því og röltum svo til baka á Odeon til að sjá Joss Stone, sem er mjög góð söngkona. Ég keypti diskinn hennar um daginn og hef haft mjög gaman að honum, dálítið öðruvísi en það sem ég hlusta venjulega á. Eina sem skemmdi þá tónleika var að til að byrja með heyrðist ekki nógu vel í henni og svo virtumst við vera umkringd fólki sem hafði meiri áhuga á spjalla saman en að hlusta á tónlistina. Þegar hún var búin röltum við upp á Orange sviðið og horfðum á Korn. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikill Korn aðdáandi, en ég skemmti mér alveg þrusu vel og það var mjög gaman að sjá þá, sérstaklega þegar þeir tóku Another brick in the wall með Pink Floyd. Eftir það verð ég að segja að ég fékk alveg nýtt álit á hljómsveitinni. Við röltum til baka upp í tjald til að fá okkur nokkra öllara fyrir háttinn og Ingi og Kolbeinn, vinir hennar Berglindar, kíktu til okkar. Allir voru frekar blautir og skítugir eftir daginn.

Á föstudeginum vöknuðum við við nágranna okkar, sem voru einhvers staðar frá austur-evrópu, sem voru að syngja í bland við öskrin í þjóðverjunum og rigningu öðru hvoru. Við tókum því bara rólega um daginn og röltum svo upp á tónlistarsvæðið seinni partinn. Á leiðinni uppeftir heyrðum við í hollenskri hljómsveit sem heitir Within temptation, hún virkaði mjög góð og ætla ég að tékka betur á henni. Samkvæmt dagskránni átti Pixies að byrja að spila kl hálf átta, en þar sem Bowie var aflýst breyttist dagskráin og Slipknot spilaði á undan Pixies. Ég verð að segja að það er ekki hljómsveit sem ég fíla, meðlimirnir voru eins og klipptir út úr hryllingsmynd og mér fannst þetta bara vera öskur. Við nenntum ekki að horfa á þetta og fengum okkur göngutúr um svæðið. Loksins hættu öskrin og við fengum okkur sæti og biðum eftir Pixies, sem var búin að vera mikið tilhlökkunarefni hjá okkur systrunum, en því miður öllu þau dálitlum vonbrigðum. Þau voru mjög góð og gaman að sjá þau, en það vantaði kraft í þau og líflegri framkomu. Næst á eftir voru the Hives, hljómsveit sem ég þekki ekki mjög vel en allir segja að sé mjög góð. Ég get ekki sagt að ég sé sammála, sviðframkoma var jú líflega en mér fannst lögin öll hljóma eins og ekkert sérstaklega skemmtileg. Við gáfumst upp á að horfa og ákváðum að fara bara upp í tjald.

Sama sagan með nágranna endurtók sig á laugardags- og sunnudagsmorguninn, en það er bara eitt af því skemmtilega við að fara á svona útihátíð :o) Seinnipartinn á laugardeginum virtist ætla að létta aðeins til, ekki misskilja það rigndi ekki stanslaust. Versti dagurinn var fimmtudagurinn, hina daganna var þetta svo köflótt, rigning og sól til skiptis. Á laugardeginum fórum við að sjá Kings of Leon, sem ég hafði ekki heyrt um áður en þekkti þó eitt lag með þeim. Þeir voru góðir og ein af nokkrum sveitum sem ég ætla skoða betur eftir þessa helgi. Næst var haldið á Odeon á Kira and the kindred spirits, sem var ein önnur frábær hljómsveit á þessar yndislegur hátíð. Minnti dálítið á Janis Joplin og Anouk. Svo næst kom eitthvað fyrir Gústa greyið, sem við systurnar vorum búnar að þvæla á alla þessa rokktónleika. Basement Jaxx stigu á Orange sviðið og komu öllum í dansfíling, meira segja mér. Og til að ljúka þessu snilldarkvöldi var farið niður á Arena að sjá Morrisey, sem ég verð að segja kom mér á óvart og naut ég tónleikanna mjög mikið.

Veður- og tónlistarlega var sunnudagurinn besti dagurinn, það ringdi smá um daginn en það var meira svona hitaskúrir og gátum við notið dagsins regnbuxnalausar, loksins. Við heyrðum lokin á tónleikunum hjá Michael Franti, sem var góð upphitun fyrir goðið, Santana. Og hann átti hátíðina því án efa þá voru þetta bestu tónleikarnir alla helgina, ekkert gat skemmt þessa tónleika... Ekki einu sinni fíflin fyrir framan okkur og þeir virtust ætla að gera sitt besta... Ég held bara að nokkurn veginn allir gestirnir hafi verið á tónleikunum og allir í dansstuði. Það var æðislegt að sjá goðsögnina á sviði, upplifun sem mun aldrei gleymast!!!! Í tónlistarvíma röltum við niður að Arena til að sjá Frans Ferdinad og Muse. Frans Ferdinad spilar góða tónlist og var gaman að heyra fleiri lög með þeim, þar sem ég þekkti ekki nema kannski 2-3. Muse var næst á svið og þeir voru án ef með skemmtilegri tónleikum sem við sáum um helgina. Ég hef ekki mikið hlustað á þá og ég sá að það voru mistök, tónlistin þeirra er frábærlega góð og svona aðeins öðruvísi. Þetta endaði hátíðina hjá okkur, en eitt var eftir og það var að klára bjórinn. Við vorum nú ekki öflugri en það í drykkjunni að við rétt náðum að klára kassa af bjór 3 saman :o) Eitthvað sleppti fólk sér svona síðasta kvöldið og ansi mikið fjör var á tjaldsvæðinu, þó var nú fullt af liði sem fór heim þarna á sunnudeginum.

Við vöknuðum snemma á mánudagsmorgninum eftir mjög mjög kalda nótt og tókum saman dótið og héldum heim á leið. Fegnust vorum við að geta hent í burtu stígvélunum og farið í sandalana okkar. Þegar komið var heim var farið í langþráða sturtu og maður skrúbbaður hátt og lágt. Næst var það matur, sem var borðaður sem góðri list og svo ákváðum við að leggja okkur aðeins og var það einn besti lúr sem ég hef fengið. Nú er svo kominn háttatími og mikið verður gott að sofa í rúminu mínu...

Og by the way... Til hamingju Grikkland með Evrópumeistaratitilinn (hélt með þeim allan tímann :o)) Og þið þurfið ekki að koma með uppstungur að nafni á krílið mitt. Það er búið að skíra hann, hann heitir Spuni

Einungis 360 dagar í næstu hátíð!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home