fimmtudagur, október 14, 2004

Ég er ekki hætt að blogga...

það er bara búið að vera frekar dautt hérna upp á síðkastið. Ég sagði ykkur að ég væri að fara út að borða með skvísunum i skólanum. Við byrjuðum á að fara í Hedenholm kastala þar sem við tókum einhverjar busness kellingar í andlitsböð, ekki mjög skemmtilegt og hræðileg aðstaða. Um kvöldið fórum við svo út að borða, ekki allar samt. Það var ég, Vaka, Louise, Michelle, Ditte, Kamilla og Julie. Við fórum á Den grimme elling, sem var ágætt nema þetta var svona hlaðborðarveitingastaður. Ekki alveg minn stíll, ég er kannski snobbuð en mér er alveg sama, þegar ég fer út að borða við ég fá þjónustu. Maður hefur alltaf haldið að Danir væru svo ligeglad en ég verð að segja að það er ekki mín reynsla af þeim. Við Vaka pöntuðum okkur könnu af bjór með matnum og þetta er á föstudegi og þær voru svo hneykslaðar, héldu að við ætluðum bara að detta í það. Þið þekkið mig ég þarf aðeins meira en hálfa könnu af bjór til að detta í það, en annars var þetta mjög skemmtilegt kvöld. Við hlógum mjög mikið og náðum að kynnast aðeins utan skólans.

Ég er búin að vera á fullu í skólanum. Ég var í prófi í bóklega, sem betur gilti ekki neitt, því mér gekk hræðilega. Ég var svo glær að ég gleymdi orðabókinni minni heima sem er ekki gott því þótt ég sé farin að tala ágætlega þá er ég ekki mjög klár að skrifa á dönsku. Ég fór svo í annarpróf í förðuninni, ég fékk 9 í verklega sem er allt í lagi. Ég er samt ekki nógu ánægð með það, ég held að hún hafi dregið mig niður af því að ég gerði ekki kvöldförðun eins og hún kenndi okkur. Mér er reyndar nokk sama um förðunina hérna því ég flyt aftur heim til Íslands árið 2005 ekki 1995 og ég er með prófskírteinið mitt frá No Name. Ég er ekki búin að fá úr bóklega hlutanum en ég held að það hafi gengð vel, en það kemur í ljós.

Á fimmtudaginn komu mamma, Berglind systir, Arna Lind og Ósk frænkur mínar í heimsókn. Það var æðislega gaman að sjá þær. Ég var búin að panta tíma fyrir þær í lúxus andlitsbað í skólanum, smá dekur. Ég tók svo Berglindi og Örnu Lind í vax, sem var sjúklega fyndið. Berglind hefur farið nokkrum sinnum í vax og þið munið kannski eftir lýsingunni á fyrsta skiptinu hennar. Arna Lind var hins vegar að fara í fyrsta skiptið núna og guð minn góður, ég vildi að ég gæri sýnt ykkur video. Ég kippti fyrsta strimlinum af og hún ætlaði hreinlega að hætta við og hana langaði greinilega að meiða mig. Hún kvartaði og kveinaði og öskraði allan tímann, kramdi höndina á Berglindi þannig að hún var öll marin og blá eftir hana. Hún ætlaði ekki að leyfa mér að vaxa hina löppina en það var nú ekki séns að ég myndi hleypa henni svoleiðis út. Ég verð að segja að hún frænka mín er svo mikil kelling að hún er karlmaður ;o)

Eftir þessa píningu var haldið í bæinn og við versluðum aðeins, þ.á.m. keypti ég mér 2 pör af skóm, ótrúlegt en satt. Um kvöldið var svo borðað á Jensens eftir smá skoðun á lokal mallinu. Síðan var farið alltof seint að sofa því við vorum vaknaðar kl hálf átta á laugardagsmorguninn og stefnan tekin á Kaupmannahöfn, þá aðallega Fields. Herdís frænka kom frá Noregi til að hitta okkur inn í Kaupmannahöfn. Endurfundirnir áttu sér stað inn í Fields, mjög gaman. Við systurnar gátum verslað aðeins. Ég keypti annað par af skóm, s.s. 3 pör af skóm, fleiri skó heldur en hinar tvær sem er örugglega í fyrsta skiptið sem það hefur skeð. Ég keypti mér æðislega sætt pils og tvo boli og töskuog hatt. Ágætis verslun. Um kvöldið fórum við svo út að borða á veitingastað sem heitir Pétur Uxi, það var mjög huggulegt og æðislega góður matur Verst var að ég var að byrja með flensuna sem er í gangi hérna. Þið hefðuð átt að sjá mig, ég sat inn á veitingastaðnum í peysu, með ponchoið hennar Berglindar yfir mig og sjalið mitt, samt var ég að frjósa. Ég náði sem betur fer að þrauka þangað til að þær fóru en ég gjörsamlega hrundi niður þegar þær fóru og er búin að liggja í rúminu síðan. Ég dreif mig samt í skólann í dag þar sem það var anatomia í dag og ég var laus við hitann og beinverkina. Og þetta er það eina sem hefur skeð hérna síðan ég skrifaði seinast.....

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home