mánudagur, mars 07, 2005

Þá er maður fluttur heim...

Loksins :o) svolítið skrítið samt og ég á nú eftir að sakna danaveldis aðeins, en það er sem betur fer orðið svo ódýrt að fara til Danmerkur að maður getur kannski leyft sér að skreppa öðru hvoru. Prófin gengu mjög vel, fyrir ykkur sem ekki eru búin að frétta það, bara 9 og 10 í öllu. Alls ekki slæmt fyrir stúlku með 6 í stúdentseinkun í dönsku ;o) Eftir seinasta prófið hittust allir upp í skóla og við fengum afhentar einkunnirnar okkar og það var skálað aðeins í kampavíni. Við færðum kennurunum gjafir, íslensk páskaegg og íslenskt brennivín, þær voru mjög kátar með það. Við færðum svo Tulle aukagjöf, hangikjöt og flatkökur, en við neyddum hana til að smakka í vetur þegar mamma kom með svoleiðs út fyrir okkur og henni fannst það mjög gott. Þær ætluðu að halda íslenskan dag upp í skóla og borða íslenska matinn sinn og drekka íslenska brennivínið. Eftir þetta allt saman var haldið út að borða, við fórum á ítalskan stað sem heitir Isabella og fengum ágætis mat. Þar héldum við til langt fram á kvöld og skemmtum okkur vel. Þegar svo koma að kveðjustund urðum við allar dálítið viðkvæmar, sérstaklega Vaka, enda mjög erfitt að kveðja eftir svona skemmtilegt ár. Ég, mamma og amma eyddum svo helginni í það að pakka niður og þrífa, æðislega gaman ;o) eða þannig. Á mánudagsmorgninum sátum við svo og biðum eftir flutningabílnum sem ætlaði ekki að láta sjá sig. Ég hringdi því upp í Samskip og þá höfðu þau gleymt að panta bíl, týpískt... En stelpan reddaði því og bíllinn kom kortéri seinna. Eftir að við höfðum losað okkur við allt draslið og ég klárað það sem ég þurfti að gera var gert stutt stopp hjá Vöku til að kveðja og svo var haldið til Kaupmannahafnar. Við eyddum deginum í Fields en gátum ekki verslað mikið því það var bara ekkert spennandi til.

Á þriðjudeginum sváfum við bara út og röltum svo niður á strikið, það var dálítið kalt og á leiðinni til baka upp á hótel byrjaði að snjóa. Þetta var nú ekkert alvarleg snjókoma, bara smá slydda en það fór allt í mínus í Kaupmannahöfn. Umferðin gekk ekkert, við höfðum pantað leigubíl til að keyra okkur út á flugvöll og hann keyrði á 40 alla leiðina og rásaði út um allt. En við komumst þó lifandi út á flugvöll og höfðum sem betur fer farið tímalega af stað þannig að við höfðum tíma til að rölta aðeins um fríhöfnina og fá okkur aðeins að borða áður en við fórum um borð. Það var smá seinkun á því að þeir hleyptu um borð og vorum við að fara um borð um það leyti sem við áttum að vera að taka á loft. Hins vegar liðu svo 3 tímar þangað til við fórum á loft, vegna þess að allt fór í kerfi á flugvellinum líka. Við þurftum sem sagt að bíða í 3 tíma eftir afísingu á vélinni og þið getið ímyndað ykkur hvað íslendingarnir um borð hafa verið pirraðir þar sem snjókoma úti var ekki neitt neitt. Sagan er hins vegar ekki búin hér, ó nei. Við lentum á Keflavíkurvelli og ekkert með það. Við fórum í gegnum fríhöfnina og náðum í töskurnar. Mamma gekk upp að bílastráknum og bað um lyklanna að bílnum en nei, hann hafði þá ekki. Hann kallaði þá í einhvern annan gutta sem skokkaði til að ná í bílinn en hann var eitthvað svo lengi á leiðinni og meðan var ég að fá tilfelli út stétt, örugglega svefngalsi. Eftir langa bið þá kom drengurinn til baka og tilkynnti okkur það að bíllinn væri ennþá í bóni inn í Keflavík og það væri verið að kalla út mann til að ná í hann. Ég tapaði mér gjörsamlega og hélt að ég myndi pissa á mig úr hlátri. Hún móðir mín, snillingurinn, hafði skrifað vitlausa dagsetningu á miðann en samt réttan dag en þeir hafa greinilega bara kíkt á dagsetninguna. Jæja bíllinn kom loksins og hann var allur skýjaður, þeir hafa greinilega verið byrjaðir að bera bónið á hann en bara átt eftir að pússa... En jæja svona var heimferðarævintýrið og miðað við heppnina mína undanfarið þá sekkur örugglega skipið sem búslóðin mín er í á leiðinni eða gámurinn með dótinu mínu dettur af eða eitthvað álíka... Ég er ekki enn komin með verknám :o( en það vonandi reddast. Ég er nýbúin í viðtali og hún ætlar að láta mig vita í vikunni þannig að allir eru beðnir um að hafa krosslagða fingur. Naglaskólinn er líka að byrja á miðvikudaginn, það verður vonandi skemmtilegt. Ég er komin með slatta af sjálfboðaliðum sem módel en ef einhver hefur áhuga þá er bara að hafa samband....

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home