sunnudagur, júlí 09, 2006

Hróarskeldugeðveikin 2006

Jæja hér kemur ferðasagan... Við rifum okkur á fætur eldsnemma (eiginlega um miðja nótt) á miðvikudagsmorguninn og það var haldið út á flugvöll. Ég átti flug kl 7:15 en stelpurnar ekki fyrr en 7:45 þannig að ég þurfti að hinkra aðeins eftir þeim út en það var ekkert mál. Nú voru allir komnir til Danaveldis og var þá haldið í lestina og ferðinni haldið áfram til Hróarskeldu. Þegar við komum inn á svæðið hófst leitin að góðu tjaldsvæði, sem tók eina og hálfa klst með allt draslið á bakinu. Allt þetta labb var samt vel þess virði því við fundum pláss á svæði K, sem var ekki langt frá tónlistarsvæðinu. Eini gallinn var að við vorum umkringd svíum sem fóru meira og meira í taugarnar á okkur eftir því sem leið á helgina. Þegar við vorum búnar að tjalda fengum við okkur smá göngutúr í góða veðrinu og fengum okkur kvöldmat. Meira var nú ekki gert þennan miðvikudag.

Við vöknuðum eldsnemma á fimmtudagsmorguninn. Við notuðum bara tímann til að liggja úti í góða veðrinu og njóta þess að það var ekki rigning þar sem dagskráin byrjaði ekki fyrr en kl 17:30. Við lögðum af stað um 17 leytið til að ná Editors en þeir voru fyrsta hljómsveitin af þeim sem okkur langaði til að sjá til að stíga á svið. Þeir voru geggjaðslega góðir, góð byrjun á geggjaðri helgi og get ég vel mælt með þessari hljómsveit. Næst var planið að sjá Bullet for my valentine en meðan við biðum eftir þeim duttum við inn á tónleika með danskri hljómsveit, Magtens korridorer og voru þeir bara nokkuð góðir. Bullet for my Valentine voru næstir og ollu þeir ekki vonbrigðum. Guns ´n roses voru stærsta band fimmtudags og vorum við búnar að hlakka mikið til að sjá þá. Þeir voru samt sú hljómsveit, sem að mínu mati, stóð ekki undir væntingum. Við biðum í heilan klukkutíma eftir að Axl Rose drullaði sér svið, sem hann gerði þegar búið var að púa tvisvar. Ég verð samt að gefa manninum það að hann er öflugur söngvari og góður skemmtikraftur, þ.e. þegar er á sviðinu. Hann var nefnilega líka öflugur í því að taka sér pásur, söng 2-3 lög og tók svo pásu o.s.frv. Fólk var orðið frekar fúlt og margir sem létu ekki bjóða sér þetta og fóru. Við ákváðum að þrauka þar sem það er nú ekki á hverjum degi sem að maður fær að sjá Guns ´n roses. Allar tafirnar urðu þó til þess að við misstum af Sigurrós en það verður bara að hafa það.

Á föstudeginum kom svo hitinn... Við vöknuðum í svitabaði eldsnemma um morguninn og ekki var kaldara fyrir utan tjaldið. Við nýttum daginn í sólbað og urðum svoldið bleikar, þ.e. ég og Alma Rut. Hún Berglind varð bara brún ;o) Föstudagurinn var alls ekki síðri en fimmtudagurinn. Við röltum okkur upp á tónleikasvæðið um 17 leytið og var planið að byrja á að sjá Kaizers orchestra, sem voru allt í lagi. Næstir voru svo Morrisey og Bob Dylan, sem voru náttúrlega bara púra snilld. Eftir Bob Dylan röltum við okkur niður á Odeon og hlustuðum á Death cab for cutie, sem ég var að heyra í í fyrsta skiptið og skemmti mér alveg þrusu vel. Planið var að enda á Arena á tónleikum með Kashmir, sem er dönsk hljómsveit, en þá voru samferðamenn mínir orðnir dáldið þreyttir þannig að við fórum upp í tjald að sofa. Ég keypti mér hins vegar disk með þessari hljómsveit og get vel mælt með að fólk skoði hana. Hún er þrusu góð.

Laugardagurinn var enn heitari en föstudagurinn og við Alma Rut vorum að kafna í hitanum, Berglind spilaði sig kalda og og gerði grín að okkur. Tónleikarnir hófust kl 17 á Orange með Deftones, Primal scream og Tool. Eftir allt þetta rokk róuðum við okkur niður á Odeon á tónleikum með Under byen. Eftir þetta var smá bið í næstu tónleika sem okkur langaði að sjá þannig að við ákváðum að drepa tímann og kíkja á Kanye West. Guð minn góður hvað það var leiðinlegt, sem betur fer fórum við næst á tónleika með HIM, finnskri rokkhljómsveit, og það var geðveikt gaman. Mig langaði líka að sjá Amplifier en þeit voru klukkan hálf 3 hinum megin á svæðinu þannig að við nenntum ekki hlaupa þangað yfir.

Sunnudagurinn var örugglega besti dagurinn af frábærum dögum. Við byrjuðum á Artic monkeys, ég reyndar náði ekki mikið af þeim þar sem að ég fékk smá sólsting og þurfti að setjast niður og drekka mikið af vatni. Það sem ég heyrði var samt geggjað gott. Sunnudagurinn fór svoldið í hlaup á milli sviða. Næst fórum við á Orange á The Strokes, svo aftur á Arena á Placebo og svo aftur yfir á Orange á Franz Ferdinand. Við Berglind skildum svo Ölmu Rut eftir á Franzinum og fórum að hlusta á The Raconteurs, sem voru hrein snilld. Roger Waters lokaði svo hátíðinni og það var... vá get eiginlega ekki lýst þeim. Tónleikarnir voru alveg brilljant upplifun.

Við vöknuðum eldsnemma á mánudagsmorguninn og tókum niður tjaldið og hófum heimferðina. Við byrjuðum á því að þvo af okkur útilegurykið og tókum svo strætóinn inn í Hróarskeldu. Það var sjúklega mikið af fólki á lestarstöðinni og ekki fræðilegur möguleiki á að komast að til að kaupa miða í lestina. Við gáfumst upp á að bíða og ákváðum að taka leigubíl til Kaupmanna hafnar, sem við gerðum og kostaði það einungis 446 kr. Við skelltum farangrinum í geymslu og héldum á strikið. Við versluðum smá, nenntum því eiginlega ekki. Alltof heitt. Við enduðum svo daginn á Jensen´s bofhus og borðum alvöru mat með hnífapörum við borð ;o) Ég hélt svo áleiðis út á Kastrup til að fljúga heim en stelpurnar voru fram á þriðjudag. Ég kom út á völl og þar var allt í hassi út af einhverju verkfalli og fávitaskap og leti í dönunum. Þetta endaði allt með 2ja tíma seinkun á fluginu og ég var ekki komin heim til mín fyrr en kl hálf 2 um nóttina og með kvef og hálsbólgu ofan á allt saman. Ég vaknaði svo kl 8 um morguninn og fór í vinnuna en það var eini dagurinn þessa vikuna sem ég mætti til vinnu, þar sem heilsan leyfði ekki meir. Ég er samt öll að koma til og er nokkurn veginn búin að fá röddina tilbaka. Myndirnar koma svo seinna þegar Berglind setur þær inn í tölvuna...

2 Comments:

At 2:35 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ohhh hvað þetta hefur verið gaman, maður fær bara firðing, ég verð að skella mér aftur!!
Sjáumst vonandi fljótlega skvísa

 
At 7:44 e.h., Blogger Agnes said...

jamm þú kemur bara með á næsta ári ;o)

 

Skrifa ummæli

<< Home