mánudagur, febrúar 25, 2008

Sumir dagar eru stórkostlega betri en aðrir...

Gærdagurinn var einn af þessum dögum. Við pabbi skelltum okkur í hesthúsið fljótlega uppúr hádegi og fórum í fyrstu reiðtúra vetrarins. Betra seint en aldrei!!! Það er búið að vera svo mikið að gera og svo er veðrið búið að vera svo leiðinlegt að það hefur einhvern veginn ekki gefist tími fyrir miklar útreiðar, en í gær fórum við. Við byrjuðum að fara á Náttsól og Urði, þær stöllur voru nú ekki á því að fara mikið fetið. Ó nei það var sko tekinn sprettur allan hringinn, æðislega gaman hjá þeim. Ég var í einhverri tilgangslausri baráttu að reyna að halda aðeins aftur af Urði svo hún sprengdi sig ekki á fyrsta túrnum en gafst fljótt upp á því. Þær stóðu því gjörsamlega á öndinni er við komum aftur í hesthúsið, en ægilega ánægðar með sig. Næstir voru Golíat og Víðir. Ég var nú alveg viss um að það myndi verða miklu rólegra en nei... Víðir tók af stað á fljúgandi tölti úr innkeyrslunni og Golíat á eftir. Þeir voru jú ekki alveg á sama spaninu og skvísulísurnar, enda annar á 23 aldursári og hinn frekar hægur í förum þó hann sé að fara hratt. Þetta var alveg besti dagurinn í langan tíma, eina sem skemmdi aðeins var að hinn aldursforsetinn í húsinu okkar var eð skrítinn. Við komumst að þeirra niðurstöðu að greyið væri með hrossasótt (hestaflensa fyrir ykkur sem aldrei hafið stigið fæti í sveit, magakrampi og skemmtilegheit) og var því kallaður til dýralæknir. Við pabbi komum honum á fætur, ég togaði í hausinn og pabbi ýtti á rassinn og svo labbaði ég með hann fram og tilbaka þangað til dýri kom því ef ég stoppaði þá henti hann sér niður greyið. Dýri gaf honum 2 sprautur og var hann allur að koma til þegar við fórum heim. Ég ætla ekki að láta langt um líða áður en ég á annan svona dag.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Foreldrar mínir hafa ekki mikið álit á mér....

en ég lenti í því áðan að bíllinn minn dó. Það kviknaði olíuljósið og það pípti, síðan kviknaði vélarljósið og svo dó bíllinn minn. Ég var að keyra á Sæbrautinni og náði að láta bílinn renna inn í Skúlagötuna. Þar sat ég, alveg í rusli og hringdi í mömmu. Og hvað haldið þið að hún hafi spurt: Er hann ekki bara bensínlaus? Þetta voru líka fyrstu viðbrögðin hjá honum pabba mínum. Hvað halda þau að ég sé??? Einhver algjör ljóska nýkomin með bílpróf!!!! Ohhh nei bíllinn dó... Úpps ég gleymdi að setja bensín á bílinn! Come on fólk! Annars held ég að ég sé búin að finna orsök vandans... vatn virðist vera orsökin og það kemur vonandi í ljós betur á fimmtudaginn þegar hann fer í check til Heklu. Ég kom honum á endanum í gang aftur og komst heim.

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Amma fékk nöfnu í dag

Hann Albert frændi var að skíra litlu snúlluna sína í dag og fékk hún nafnið Erna Magnea. Í höfuðið á föðurömmunni og afanum, en amma okkar heitir Magnea og afi hét Örn. Hún ber nafnið vel litla skvísan og hún er svo lík pabba sínum. Það er líka smá svipur af mér á henni. Ég set inn myndir af henni þegar ég fæ þær og þá getið þið dæmt um það sjálf.


Hún Helga hans Hauks frænda sendi mér myndir af mér og Sunnu Maríu frá því um jólin. Þær sýna vel hvað henni frænku minni finnst gaman að hnoðast á fjölskyldumeðlimunum.

laugardagur, febrúar 16, 2008

Sunnudagur á morgun :(

Kræst hvað dagarnir hverfa einhvern veginn. Það varð ekki eins mikið úr deginum í dag eins og ætlunin var. Ég fór aðeins á flakk með mömmu og Sunnu Maríu. Síðan fór ég með Lady í göngutúr og hún litla frænka mín vildi sko endilega fara með, þó hún væri nú ekki beint klædd fyrir slíkt. Maður þrasar sko ekki við litla skoffínið og hún fékk að koma með. Hún vildi sko líka halda ein í tauminn, svaka stór stelpa. Verst var að við vorum rennandi blautar þegar við komum tilbaka. Ég dreif mig svo í búðina, verslaði pínu og hélt svo heim í húsmóðurleik. Það á nefnilega að skíra litlu frænku mína (hana Helgu Kristínu eins og pabbi kallar hana) á morgun og ég lofaði mömmu að hjálpa til með því að baka smá. Og nú þegar það er búið þá ætla ég að setjast niður og læra aðeins. Jáhá það er sko alltaf líf og fjör á þessum bæ :o)

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

Ég er sko engin bévítans íþróttaálfur


...komst sko að því í dag þegar við Erla mættum fyrsta daginn okkar í háskólaræktina. Ég var kannski aðeins of metnaðarfull og ætlaði sko að taka þetta með trompi. Spurningin er hins vegar hvort maður eigi ekki að gera þetta hægt og rólega og byggja upp smá þol og styrk. Hvað finnst ykkur? Næst er mæting í ræktina á morgun. Það er bara spurning hvort maður komist framúr??? Nei annars nú er bara harkan á þessu heimili, enginn helv... aumingjaskapur!!! Og svo verð ég aðalskvísan í bænum í sumar ;o)

föstudagur, febrúar 08, 2008

I am Back!

Ég endurvekja bloggið mitt og ætla að reyna að verða virkur bloggari. Ég veit ekki hvursu áhugavert þetta verður en mun reyna að hafa þetta líflegt. Ég get ekki sagt að það hafa orðið neinir stórviðburðir síðan í september þegar ég birti seinasta blogg. Skólinn gekk sinn vanagang með prófum í desember, sem gengu bara vel, og síðan tók við vel þegið jólafrí. Kózýheit heima hjá mömmu og pabba og góðar stundir með familíunni. En svo lauk himnaríkinu og janúar byrjaði og þar með skólinn. Ég get svo sem ekki kvartað mikið. Ég mæti bara einu sinni í viku í skólann, hina kúrsanna horfi ég á heima þökk sé tækninni og svo er ég líka að vinna í B.A. ritgerðinni minni, þ.e.a.s. fyrri B.A. ritgerðinni minni. Ég ætla að skrifa um danskar barnabókmenntir á árunum 1900-1950 og hvaða áhrif heimstyrjaldirnar höfðu á þær. Mér finnst þetta frekar spennandi efni og það verður vonandi áhugavert að vinna í henni.

Hestarnir mínir eru komnir í bæinn en það hefur nú ekki beint verið veður til mikilla útreiða. Ég fór svo með honum föður mínum norður í land um seinustu helgi og gisti á Gauksmýri. Í viðveru minni tók ég hann Gáska í reynsluprufu og það gekk bara vel. Við náðum bara ágætlega saman. Ég ákvað að hafa hann aðeins lengur á Gauksmýri og fara þangað aftur og prufa hann utandyra, þar sem ekki var hægt að fara í útreiðartúr vegna snjós.

Ég hef hins vegar nægan tíma núna fyrir bæði skóla og hestanna þar sem ég er nú hætt að vinna. Jamm er sko bara orðin iðjulaus námsmaður... jáhá sko bara lúksus líf á þessum bæ ;o)